Hugsum í framtíð
í árslok 2016 fagnaði TM 60 ára afmæli. Rætur félagsins liggja í íslenskum sjávarútvegi og starfsemin fyrstu árin einskorðaðist við að veita fyrirtækjum í sjávarútvegi tryggingaþjónustu. Þessi sterka tenging milli TM og sjávarútvegsins hefur haldist æ síðan, en með tíð og tíma þróaðist félagið og varð alhliða tryggingafélag sem veitir einstaklingum og fyrirtækjum víðtæka þjónustu.
Á tímamótum er til siðs að líta yfir farinn veg og huga um leið að framtíðinni. Í takt við samfélagsbreytingar hefur þjónusta TM við viðskiptavini sína breyst mikið undanfarna áratugi. Þarfir og aðstæður fólks og fyrirtækja eru mismunandi og taka breytingum og tryggingar þurfa að taka mið af því. Helsta áskorun dagsins í dag lýtur að þeim miklu breytingum sem hafa orðið vegna örra tækniframfara. Tölvu- og snjallsímaþróunin hefur þegar umbylt mörgu í okkar daglega lífi en allt er þetta rétt að byrja.
Á árinu 2017 fór félagið í umfangsmikla vinnu við að móta áherslur TM fram á veginn og taka skýrari afstöðu til þess hvernig tryggingafélag TM ætlar að vera til framtíðar. Fyrsta skrefið fólst í að taka fjöldamörg viðtöl við starfsmenn úr öllum deildum félagsins og viðskiptavini, hvort tveggja fyrirtæki og einstaklinga. Tilgangurinn var að fá góða mynd af því hvað það er sem aðgreinir TM frá öðrum tryggingafélögum í huga fólks, hvar styrkleikar félagsins liggja öðru fremur og hvaða kröfur og væntingar viðskiptavinir hafa til TM.
TM hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu þegar kemur að frumkvæði, nýjungum og nýsköpun. Sem dæmi má nefna að félagið hefur verið leiðandi í upplýsingagjöf í Kauphöll, var fyrst íslenskra tryggingafélaga til að bjóða fiskeldistryggingar og mæta þannig þörfum vaxandi atvinnugreinar og er eina félagið sem býður viðskiptavinum sínum víðtæka vernd við skammtímaleigu heimila í gegnum vettvang á borð við Airbnb.
Á þeim góða grunni sem er til staðar hjá TM og þeirri miklu þekkingu og reynslu sem býr í starfsmönnum félagsins sköpum við okkur sérstöðu og mótum okkar sýn á framtíðina. Það er stundum sagt að framtíðin sé núna og í okkar huga er nýsköpun lykillinn að því að TM geti mætt kröfum dagsins í dag og framtíðarinnar.
Svo tryggingafélag geti mætt framtíðinni þarf það að skilja hvernig þarfir og kröfur einstaklinga og fyrirtækja eru að breytast því þær eru að breytast mjög hratt. TM þarf að taka afstöðu til slíkra breytinga og hafa skýra sýn á það hvaða áhrif þær hafa á starfsemi tryggingafélags, þjónustuleiðir og vöruframboð.
Fjöldamargar nýjungar í umhverfi okkar í dag munu hafa áhrif á tryggingafélög og samband þeirra við viðskiptavini. Hvaða áhrif mun gagnagnótt (e. Big data) hafa á starfsemi TM, áhættumat og upplýsingagjöf viðskiptavina? Hvað með sjálfkeyrandi bíla og Blockchain? Allt eru þetta dæmi sem geta mögulega gjörbreytt því hvernig tryggingafélög starfa. Kauphegðun neytenda tekur sömuleiðis hröðum breytingum. Fólk vill lausnir og upplýsingar á þeim tímapunkti sem því hentar og vill geta afgreitt sig sjálft um fjölmarga hluti. Fólk vill einfaldar tryggingar sem virka og það skilur.
Árangur TM á næstu árum felst í því að geta boðið vörur og þjónustu sem fer fram úr væntingum viðskiptavina sinna og því að byggja upp sterkt viðskiptasamband sem innifelur meira en eingöngu grunnþjónustu í tryggingum. Þennan hugsunarhátt hefur TM gert að sínu leiðarstefi og hugmyndafræði sem allir starfsmenn þurfa að tileinka sér í sínum störfum. TM hefur lagt mikla vinnu á árinu í innri málefni með það fyrir augum að styrkja félagið sem hvetjandi og skemmtilegan vinnustað sem sé aðlaðandi fyrir kraftmikið og hæfileikaríkt fólk. Það er ein meginforsenda þess að markmið TM til framtíðar náist.
TM reið á vaðið í upphafi ársins með fyrstu lausnina sem endurspeglar þann ásetning að hugsa í framtíð, TM-appið. Í appinu hafa viðskiptavinir TM aðgengilegar í hendi sér greinargott yfirlit um öll sín tryggingamál, vátryggingaskírteini og skilmála ásamt hnitmiðuðum lýsingum á því hvaða vernd tryggingarnar innifela. Þá geta viðskiptavinir TM nú tilkynnt tjón á öllum helstu heimilismunum í gegnum appið, t.d. gleraugum, tölvum, spjaldtölvum, sjónvörpum og snjallsímum, og fengið afgreiðslu sinna mála á ótrúlega skjótum tíma. Þessi þjónusta er bylting á íslenskum tryggingamarkaði og hefur fallið í góðan jarðveg hjá viðskiptavinum TM undanfarnar vikur. TM mun kynna enn frekari nýjungar á þessum vettvangi á næstu misserum.
Við lifum á tíma hraðra samfélagsbreytinga og tækniframfara og á þessum spennandi tímum ætlar TM að vera í fararbroddi. Hugsum í framtíð.