Fréttaannáll

Fyrirsagnalisti

07. mar. 2017 : Snjalltækjanámskeið fyrir eldri viðskiptavini

TM hélt tvö snjalltækjanámskeið sem sniðin voru að eldri viðskiptavinum félagsins. Á námskeiðinu var farið yfir helstu afþreyingar- og samfélagsmiðla. Samfélagsmiðlar eru orðnir helsti vettvangurinn þar sem fólk deilir upplýsingum um sitt daglega líf og því mikilvægt fyrir þá sem eldri eru að hafa góðan aðgang og þekkingu á þessum miðlum. Ásamt því að kenna á forrit á borð við Snapchat, Facebook og Instagram var farið yfir grunnatriði afþreyingarmiðla eins og Netflix, Spotify og Youtube.

Fullbókað var á bæði námskeiðin og þau fengu frábærar viðtökur hjá viðskiptavinum TM.

24. mar. 2017 : Magga Pála snappar um uppeldi og tengd mál

Margrét Pála Ólafsdóttir, betur þekkt sem Magga Pála, var með TM snappið þar sem hún ræddi uppeldi og tengd málefni eins og henni er einni lagið. Magga Pála liggur ekki á skoðunum sínum þegar kemur að uppeldi barna, hlutverki ömmu og afa og tengdum málum. Á snappinu deildi hún ýmsum fróðleik með fylgjendum TM snappsins og svaraði fjölmörgum spurningum sem henni bárust á meðan hún snappaði.

02. apr. 2017 : TM mót Stjörnunnar í handknattleik

Hið árlega TM mót Stjörnunnar fyrir 8. flokk drengja og stúlkna var haldið í TM höllinni í Garðabæ. Mikill fjöldi barna tók þátt í mótinu, eða u.þ.b. 500 keppendur, og allir fengu verðlaunapening og gjöf frá TM.

15. jún. 2017 : TM mótið í Eyjum

TM mótið í Vestmannaeyjum fór fram í júní, en mótið hefur verið haldið hvert ár síðan 1989. Þar etja kappi lið af öllu landinu í 5. flokki kvenna í knattspyrnu. Áhersla TM í styrktarmálum hefur í fjöldamörg ár verið á íþróttir barna, ekki síst knattspyrnu kvenna, og þetta mót er einn stærsti viðburður ársins.

27. jún. 2017 : Bílprófsstyrkur veittur

TM býður ungum ökumönnum og forráðamönnum þeirra að skrifa undir bílprófssamning um öryggi í umferðinni. Með samningnum heita báðir að tileinka sér góðar venjur í tengslum við akstur og ökutæki, allt frá því að nota ekki snjalltæki undir stýri til þess að aka aldrei undir áhrifum og þiggja aldrei far með ökumanni sem er undir áhrifum.

Reglulega veitir TM ungum ökumanni sem hefur gert slíkan samning bílprófsstyrk. Í þetta sinn var sú heppna Ólöf Arna Ólafsdóttir sem hlaut styrk að fjárhæð kr. 100.000.

03. sep. 2017 : TM gangan

TM býður viðskiptavinum sínum árlega í TM göngu og í ár var ferðinni heitið að söguslóðum í kringum Helgafell í Mosfellsbæ. Leiðsögumenn frá Fjallavinum leiddu gönguna og sögðu göngufólki vel valdar sögur í blíðskaparveðri.

04. sep. 2017 : TM styður Stjörnuna

Samstarfssamningur TM og handknattleiksdeildar Stjörnunnar var endurnýjaður á árinu. Það er mjög ánægjulegt fyrir TM að vera áfram aðalstyrktaraðili deildarinnar og traustur bakhjarl barna- og unglingastarfs í Garðabæ.

13. sep. 2017 : TM tekur þátt í Sjávarútvegssýningunni

Sjávarútvegssýningin fór fram í september og TM var eins og fyrri ár á staðnum, en sýningin er mikilvægur vettvangur fyrir félagið að hitta viðskiptavini sína í sjávarútvegi. Básinn í ár, stærðarinnar viti, vakti verðskuldaða athygli og þeir félagar Fannar og Benni skemmtu gestum TM með sögum af sjónum.

16. nóv. 2017 : Svifaldan veitt í sjöunda sinn

Vilhjálmur Hallgrímsson hjá fyrirtækinu Fisheries Technologies ehf. hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017. Verðlaunin voru veitt fyrir nýtt alhliða upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun.

Svifaldan er gefin af TM, sem veitir viðurkenningar og verðlaunafé til þriggja bestu hugmyndanna í keppninni hvert ár.

07. des. 2017 : TM hlýtur viðurkenningu fyrir þátttöku í Jafnréttisvísi Capacent

TM var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að taka þátt í Jafnréttisvísi Capacent, sem er verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja stuðla að vitundarvakningu um jafnréttismál og móta sér skýr markmið í framhaldinu. Með beitingu Jafnréttisvísisins er tekið á öllum þáttum sem snerta stöðu kynjanna og eru fyrirstaða þess að kynin njóti jafnréttis og að konur fái framgang innan fyrirtækja til jafns við karla.

TM fékk viðurkenningu fyrir þátttöku sína í verkefninu á viðburði á vegum Capacent, sem haldinn var í Hörpu.

19. des. 2017 : Slysavarnarskóli sjómanna fær öryggispall

TM afhenti Slysavarnarnarskóla sjómanna öryggispall á fiskikör sem er hannaður af Methúsalem Hilmarssyni, forstöðumanni forvarna hjá TM og Lárusi Halldórssyni vélvirkja hjá Skark ehf.

Tilgangur pallsins er að auka öryggi sjómanna við vinnu í lest skipa og báta þar sem þeir þurfa að standa á fiskikörum, en talsverð slysahætta fylgir slíkri vinnu.

17. jan. 2018 : Hugsum í framtíð

Í ársbyrjun 2018 hleypti TM af stokkunum nýju vörumerki og áherslum til framtíðar. Neytendur eru að upplifa gríðarlegar breytingar á vöruframboði, þjónustuleiðum og samskiptamáta við fyrirtæki. Með áherslu á nýsköpun og framboði á vörum og þjónustu sem fer fram úr væntingum viðskiptavina ætlar TM að vera í fararbroddi í þeim breytingum sem munu verða í greininni á næstu árum.

06. feb. 2018 : TM appið

TM kynnti til leiks fyrsta appið á íslenskum tryggingamarkaði. Í appinu hafa viðskiptavinir TM aðgengilegar upplýsingar um öll sín tryggingamál, t.d. iðgjöld, vátryggingaskírteini og lýsingu á þeirri vernd sem felst í tryggingunum. Appið gerir viðskiptavinum TM jafnframt kleift að tilkynna öll algengustu tjón á heimilismunum og fá afgreiðslu sinna mála á aðeins 60 sekúndum.