Ávöxtun fjárfestingaeigna

Fjárfestingatekjur námu 3.750 m.kr. á árinu 2017 samanborið við 3.178 m.kr. á árinu 2016 og hækkuðu um 18% á milli ára. Þar af voru 2.085 m.kr., eða 56%, vegna afkomu af hlutabréfum og sjóðum og 858 m.kr., eða 23%, voru tilkomnar vegna skuldabréfa og lána til viðskiptavina.

Fjárfestingatekjur 2017 (m.kr.)

 

Fjarfestingar1

Ávöxtun fjárfestinga var mjög góð eða 14,9% en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 7,7% á árinu. Ávöxtun margra eignaflokka var með miklum ágætum, þannig var ávöxtun óskráðra hlutabréfa 29,2%, skráð hlutabréf skiluðu 21,5% ávöxtun og þá var ávöxtun annarra verðbréfa 12,4% en þar undir eru fasteignasjóðir sem hækkuðu um 32,7%.

Ávöxtun fjárfestinga hefur gengið vel á undanförnum árum. Á síðastliðnum fimm árum hefur árleg ávöxtun verið á bilinu 8,8%-16,5% og að meðaltali er árleg ávöxtun 12,7%. Yfir sama tímabil hefur Markaðsvísitala Gamma hækkað um 8,4% að meðaltali.

Ávöxtun fjárfestinga TM

 

Fjarfestingar2

Í árslok 2017 voru fjáreignir þannig samsettar að handbært fé, skuldabréf og útlán til viðskiptavina námu 14.785 m.kr. sem er 51% af heildarfjáreignum. Hlutabréf og sjóðir eru 10.207 m.kr. (35% af fjáreignum) og aðrar fjáreignir 3.782 m.kr. (13% af fjáreignum). Á árinu jók TM verulega við eign sína í ríkisskuldabréfum en í árslok nam hún 5.185 m.kr. sem jafngildir 18% af fjáreignum félagsins. Þá jókst eign TM í hlutabréfum og sjóðum um 1.951 m.kr. en það skýrist alfarið af aukningu í óskráðum hlutabréfum. Óskráð hlutabréf jukust um 2.017 m.kr. á milli ára en þar af eru 1.672 m.kr. tilkomnar vegna góðrar afkomu af eignaflokknum.

Í árslok 2017 var RIKB 20 stærsta einstaka eign félagsins en hún nam 2.265 m.kr. Næst stærstu eignirnar voru S122 ehf. (2.156 m.kr.), RIKB 28 (1.690 m.kr.), SF V slhf. (1.143 m.kr.) og Fjarskipti hf. (993 m.kr.). Fimm stærstu fjáreignirnar námu samtals 8.248 m.kr. sem jafngildir 29% af fjáreignum félagsins. Tíu stærstu fjáreignirnar námu samtals 11.705 m.kr. sem jafngildir 41% af fjáreignum félagsins.