Starfskjaranefnd
Starfskjaranefnd er önnur tveggja undirnefnda stjórnar TM en stjórn skal eigi síðar en mánuði eftir aðalfund félagsins kjósa þrjá menn til setu í nefndinni og skulu þeir valdir með hliðsjón af reynslu og þekkingu á viðmiðum og venjum við ákvörðun starfskjara stjórnenda og þýðingu þeirra fyrir félagið. Þá skal meirihluti nefndarmanna vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.
Skýrsla starfskjaranefndar TM 2017-2018
Nefndarmenn
Í starfskjaranefnd eru Kristín Friðgeirsdóttir, formaður, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir og Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Skýrsla þessi nær yfir starfsár nefndarinnar frá mars 2017 til mars 2018.
Fjöldi funda
Starfskjaranefnd TM hélt þrjá fundi á starfsárinu.
Helstu verkefni starfskjaranefndar
- Framkvæmd starfskjarastefnu - eftirlit og eftirfylgni
- Þróun launa, hlunninda og annarra starfskjara
- Endurskoðun á kaupaukakerfi
- Launakjör forstjóra
- Stjórnarlaun
- Starfskjaramál, jafnlaunavottun og jafnréttisstefna
- Mat nefndar á eigin störfum
- Tillögur til stjórnar TM
Framkvæmd starfskjarastefnu
Hlutverk starfskjaranefndar er að móta og fylgja eftir starfskjarastefnu TM. Þá ber nefndinni að fylgja eftir þróun mannauðsmála. Nánar er getið um hlutverk nefndarinnar í starfsreglum hennar. Á hverju ári kallar nefndin eftir greiningum sem og niðurstöðum mælinga ásamt upplýsingum um starfshætti og ferla við ákvörðun og eftirfylgni. Nefndin setti sér starfsáætlun í upphafi tímabilsins sem unnið var eftir.
Þróun launa, hlunninda og annarra starfskjara
Á hverju ári eru unnar umfangsmiklar launagreiningar innan TM. Þannig er unnið markvisst að helsta markmiði starfskjarastefnunnar sem er að TM sé samkeppnishæft og geti haldið í og ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins. Launagreiningar sem unnar eru fela í sér samanburð á þróun launa á milli sviða og kynja innan TM. Þá er einnig skoðuð þróun launa hjá TM miðað við launavísitölu, kjarasamninga VR og SA. Til viðbótar er gerður samanburður við þróun launa hjá fjármála- og tryggingafélögum.
Eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan þá hafa laun hjá TM þróast á svipaðan hátt og launavísitalan en hækkað örlítið meira en kjarasamningar VR og SA.
* Laun í september; laun forstjóra og framkvæmdastjóra undanskilin
** Lágmarkshækkun skv. samningi
*** Frá og með 3. ársfj. fyrra árs til og 2. ársfj.
**** Launaþróun innan atvinnugreinar milli 2016 og 2017 ekki fyrirliggjandi
Endurskoðun á kaupaukakerfi
Í ljósi nýrrar reglugerðar nr. 585/2017 var kaupaukakerfið hjá TM endurskoðað. Niðurstaða nefndarinnar og forstöðumanns lögfræðiþjónustu var að útfærsla og framkvæmd er að öllu leyti í samræmi við nýja reglugerð.
Hjá TM eru í gildi breytileg starfskjör hjá 6 einstaklingum (forstjóri, 3 framkvæmdastjórar og 2 forstöðumenn) sem fylgja kaupaukakerfi TM. Breytileg starfskjör eru tengd við fyrirfram ákveðin og mælanleg árangursviðmið sem endurspegla raunverulegan vöxt félagsins og fjárhagslegan ávinning til lengri tíma fyrir félagið og hluthafa þess.
Þeir árangursmælikvarðar sem kaupaukar byggja á eru bæði huglægir og hlutlægir og er heildarniðurstaðan notuð til að ákvarða kaupaukann. Hlutlægu þættirnir ráða 80-100% og huglægu 0-20%. Enginn kaupauki er greiddur ef arðsemi eigin fjár er undir 15% (sem er einn af lykilmælikvörðum félagsins). Aðrir mælikvarðar miðast við mismunandi áherslur á hverju sviði.
Þegar ársreikningur liggur fyrir er farið yfir árangurinn með hverjum og einum starfsmanni sem fellur undir hin breytilegu starfskjör þar sem rökstuðningur fyrir kaupaukagreiðslunni er metinn. Skrifað er undir yfirlýsingu þar sem fram kemur hversu mikið af kaupaukanum frestast.
Þess ber að geta að innri endurskoðun, regluvarsla og áhættustýring framkvæma úttektir á kaupaukakerfinu.
Niðurstaða ársins er að kaupaukar eru á bilinu 10-25% af árslaunum. Samtals reiknaður kaupauki nemur 26,6 m.kr. (án launatengdra gjalda) þar af frestast greiðslur í 3 ár fyrir samtals 8,9 m.kr.
Launakjör forstjóra
Eins og fram kemur hér að ofan þá fylgja breytileg starfskjör forstjóra félagsins kaupaukakerfi TM og byggja á lykilárangursmælikvörðum sem eru endurskoðaðir af starfskjaranefnd og stjórn ár hvert. Að sama skapi eru árangursmælikvarðarnir bæði hlutlægir og huglægir. Hlutlægu þættirnir ráða 80% og huglægu 20%. Mælikvarðarnir endurspegla markmið félagsins ár hvert og taka mið af stefnumarkandi áherslum TM.
Það er mat stjórnar TM að fyrir árið 2017 hafi forstjóri náð þeim árangri sem stefnt var að.
Starfskjaranefnd tók starfskjör forstjóra til skoðunar á árinu og var m.a. stuðst við starfskjarastefnu TM, samantekt á launum forstjóra í skráðum félögum og álit frá utanaðkomandi ráðgjafa um launakjör forstjóra í íslenskum fyrirtækjum. Niðurstaða nefndarinnar var að laun forstjóra séu samkeppnishæf.
Stjórnarlaun
Samkvæmt starfskjarastefnu TM þá endurspegla laun stjórnarmanna þá ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf í stjórnarstörf. Stjórnarmenn njóta ekki hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.
Starfskjaranefnd endumetur laun stjórnar á hverju ári. Ákvörðun um stjórnarlaun miðast við laun stjórnarmanna í öðrum sambærilegum skráðum félögum, hækkun á almennri launavísitölu, sem og árangri félagsins.
Starfskjaramál, jafnréttismál og jafnlaunavottun
Hjá TM er mikill metnaður fyrir því að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks. Starfskjaranefnd hefur síðustu ár lagt þunga áherslu á að tryggja að svo sé í orði og á borði. Stór hluti af vinnu starfskjaranefndar er að fylgja eftir þessari vinnu og útfærslu. Þannig hefur verið unnið markvisst að því að útrýma óútskýrðum kynjabundnum launamun. Úttekt á launum í TM sýnir að óútskýrður launamunur er um 1,4% körlum í hag en hefur farið minnkandi. BSI vann að viðhaldsvottun sumarið 2017, en í niðurstöðu þeirra segir: „Jafnlaunakerfi Tryggingamiðstöðvarinnar hf., kt: 660269-2079 hefur verið starfrækt undanfarin ár. Gerðar hafa verið nauðsynlegar úrbætur á jafnlaunakerfinu eftir því sem verklag hefur þróast hjá ábyrgðaraðilum og stjórnendum. Niðurstöður launagreininga benda til að ákvarðanir um kjör séu innan viðmiða“.
Fjölbreyttar launagreiningar hjálpa stjórnendum að móta skýr viðmið og verklag við launaákvarðanir og/eða breytingar. Þá auðvelda markvissar innri launagreiningar stjórnendum að eyða óútskýrðun kynjamun.
Á árinu var unnið viðamikið verkefni í innleiðingu jafnréttis. Capacent sá um framkvæmd á þessu 4. fasa innleiðingarferli. Almenn ánægja var meðal starfsfólks og stjórnenda með verkefnið. Í kjölfarið fékk TM viðurkenningu vegna þátttöku í Jafnréttisvísi Capacent.
Í Jafnréttisvísinum eru þrír þættir lagðir til grundvallar
- Fjölbreyttni í menningu og umhverfi
- Skýr markmið og ábyrgð jafnréttismála
- Gagnsæið ráðningar- og framgangsferli
Capacent mun taka út stöðu mála með reglubundnum hætti og greina frá framvindu markmiða árlega í þrjú ár. TM setti sér markmið byggt á jafnréttisvísinum í eftirfarandi þáttum:
- Staða kynja í mismunandi stjórnunarlögum
- Framgangs- og mentorkerfi fyrir konur
- Ráðningaferli
- Menning og umhverfi
- Fyrirmyndir
- Fræðsla og viðburðir
Þróun starfsánægju
Ánægt starfsfólk sýnir að fyrirtækið er góður og eftirsóknarverður vinnustaður og eykur samkeppnishæfni þess. Margar rannsóknir sýna að ánægja starfsfólks er forsenda þess að viðskiptavinir séu ánægðir sem jafnframt er grunnur að áframhaldandi viðskiptum. Þannig að mikilvægi starfsánægju er líklega aldrei vanmetin. Starfsánægja hjá TM hefur aukist samfellt frá árinu 2006 fyrir utan litla minnkun árið 2015. Í febrúar 2016 var gerð könnun á vegum Gallup og var starfsánægjan þá komin í 4,35. Aftur var gerð könnun árið 2017 og sýna niðurstöður áframhaldandi aukningu á nánast öllum mældum þáttum. Þetta er mjög ánægjuleg þróun og gríðarlega sterkur grunnur að byggja á.
Starfskjarastefna
Nefndin fór yfir starfskjarastefnu ásamt forstöðumanni lögfræðiþjónustu og lagði nefndin til við stjórn að starfskjarastefnunni yrði breytt þannig að hún innihaldi umfjöllum um helstu þætti kaupaukakerfisins. Einnig var kaupaukakerfið gert að fylgiskjali starfskjarastefnunnar. Með þessum breytingum er stuðlað að frekara gegnsæi og tryggt að samþykki hluthafafundar þurfi til að breyta kaupaukakerfinu.
Mat á eigin störfum
Nefndin fór yfir þau viðmið og reglur sem starfskjaranefnd starfar eftir, þ.e., lög og reglur, m.a. um hlutafélög, nr. 2/1995, Leiðbeiningar um góða stjórnarhætti, starfsreglur starfskjaranefndar, starfskjarastefnuna sem og starfsáætlun. Voru nefndarmenn sammála um að nefndin hefði sinnt þeim atriðum sem þar koma fram og ætlast er til af nefndinni.
Það ber að nefna að nefndin hefur fengið staðfestingu á að laun og önnur starfskjör séu í samræmi við stefnu félagsins sem og reglur FME.
Tillögur starfskjaranefndar til stjórnar
Starfskjaranefnd metur út frá mælikvörðum og samræðum við forstjóra og forstöðumann mannauðsmála að TM sé framúrskarandi vinnustaður þar sem ríkjandi viðhorf er að gera enn betur.
Starfskjaranefnd hefur síðustu ár lagt áherslu á jafnréttismál og hefur TM stigið mikilvægt skref með umfangsmikilli innleiðingu jafnréttis sem verður tekin út árlega næstu þrjú ár. Starfskjaranefnd telur mikilvægt að jafnréttismál verði áfram tekin föstum tökum enda er líklegt að það geri TM að eftirsóttari vinnustað.
TM hefur nýtt mörg nýleg tækifæri sem hafa gefist til að jafna hlutfall kynja í deildum fyrirtækisins. Mikilvægt er þessi tækifæri verði áfram nýtt með skipulögðum hætti þegar þau skapast.
Stjórnendur hjá TM hafa á hverju ári tækifæri til endurmenntunar. Vinnumarkaðurinn breytist hratt og tryggingastarfsemi er í hraðri þróun sérstaklega hvað varðar starfræn mál. Því er mikilvægt að stjórnendur fylgist vel með því sem er að gerast á hverjum tíma. Starfskjaranefnd telur mikilvægt að enn frekari áhersla sé lögð á endurmenntun stjórnenda.
Starfskjaranefnd telur að tillögur nefndarinnar hafi ekki áhrif á áhættu félagsins.