Endurskoðunar­nefnd

Nefndin var kosin á stjórnarfundi þann 16. mars 2017 í framhaldi af aðalfundi félagsins.  Nefndina skipa Andri Þór Guðmundsson, Anna Skúladóttir og Einar Örn Ólafsson.   

Nefndin er skipuð á grundvelli 108. gr. a. laga um ársreikninga nr. 3/2006, þar sem kveðið er á um að einingar tengdum almannahagsmunum skuli hafa endurskoðunarnefnd.  Jafnframt hefur stjórn TM sett nefndinni starfsreglur.  Störf nefndarinnar hafa grundvallast af þeim ramma sem lög og starfsreglur setja henni.

Nefndin fundaði sjö sinnum á starfsárinu.

Helstu verkefni nefndarinnar voru:

 1. Nefndin skipti með sér verkum og var Anna Skúladóttir kosin formaður nefndarinnar.
 2. Starfsáætlun nefndarinnar 2017/2018 samþykkt.
 3. Farið yfir samninga við ytri og innri endurskoðendur.
 4. Samþykkt áætlun innri endurskoðenda fyrir árið 2017 ásamt 3ja ára áætlun.
 5. Yfirferð á milliuppgjörum ársins 2017 sem ekki eru könnuð af ytri endurskoðendum; 31. mars og 30. september ásamt könnuðu uppgjöri 30. júní.
 6. Yfirferð með ytri endurskoðendum um framkvæmda- og tímaáætlun vegna könnunar árshlutauppgjörs 30. júní 2017 og endurskoðunar ársreiknings 2017.
 7. Yfirferð á ársreikningi 2017.
 8. Yfirferð á skýrslu ytri endurskoðenda.
 9. Óhæði ytri endurskoðenda staðfest.
 10. Yfirferð án stjórnenda með ytri endurskoðendum um mat þeirra á samstarfi og gæðum vinnu stjórnenda við gerð ársreiknings og árshlutauppgjöra.
 11. Gerð tillaga til stjórnar um val á ytri endurskoðendum fyrir aðalfund félagsins 2018
 12. Yfirferð á skýrslum innri endurskoðenda.
 13. Eftirfylgni með viðbrögðum stjórnenda við athugasemdum innri endurskoðenda.
 14. Yfirferð á ársfjórðungslegum áhættuskýrslum.
 15. Yfirferð á ORSA skýrslu.

Áhersla var lögð á að vinna innri endurskoðenda nýttist ytri endurskoðendum í vinnu þeirra eftir því sem mögulegt væri og kom fram við yfirferð með ytri endurskoðendum að það hefði gengið vel. 

Reikningsskil:

Í samræmi við starfsáætlun nefndarinnar fyrir tímabilið var farið ítarlega yfir tíma- og framkvæmdaáætlun ytri endurskoðenda um framkvæmd könnunar árshlutareiknings 30.06.2017 og endurskoðunar ársreiknings 2017 með stjórnendum félagsins og ytri endurskoðendum. Jafnframt var farið ítarlega yfir ársreikning og árshlutauppgjör með sömu aðilum.  Sérstaklega var horft til matsliða og áhættuþátta sem áhrif kunna að hafa á niðurstöðu reikningsskilanna en þar vega þyngst mat á tjónaskuld og mat óskráðra verðbréfa sem jafnframt eru skilgreindir lykilatriði endurskoðunarinnar í áritun endurskoðanda.

Sú breyting var gerð á framsetningu sjóðstreymis á árinu að það er nú sett fram með svokallaðri beinni aðferð.

Áritun endurskoðenda á ársreikning félagsins fyrir árið 2017 var fyrirvaralaus.

Sérstaklega var farið yfir mat á tjónaskuld.  Tryggingastærðfræðingar frá PWC í Hollandi aðstoðuðu við endurútreikning á tjónaskuldinni og yfirferð á aðferðafræði TM við mat á tjónaskuld.  Endurútreikningur PWC gaf mjög sambærilega niðurstöðu og útreikningur TM.

Farið var ítarlega yfir mat á óskráðum eignum með stjórnendum TM og ytri endurskoðendum. Ekki voru gerðar athugasemdir við útreikninga félagsins.

Sérstaklega var fjallað um þrjú atriði í skýrslu ytri endurskoðenda frá fyrra ári sem talið var að myndu auka formfestu í eftirlitsumhverfi félagsins. Í fyrsta lagi að tengja betur saman áhættumat og skráningu ferla. Í öðru lagi þurfi að fylgjast betur með skráningu í breytingastjórnun UT kerfa og í þriðja lagi að formfesta skjölun á mati vátryggingaskuldar.

Í skýrslu ytri endurskoðenda með ársreikningi 2017 kemur fram að verulegar umbætur hafi verið gerðar varðandi skráningu helstu fjárhagsferla og eftirlitsumhverfis í heild. En  mikilvægt sé að áfram verði unnið að skjölun fjárhagsferla, samþættingu áhættumats og skilgreiningu á eftirlitsaðgerðum.  Einnig hafi verið unnið að skjölun tjónaferilsins á árinu.  Mikilvægt sé að ljúka þeirri vinnu og samþætta við áhættumat og eftirlitsaðgerðir. Staðfest var að úrbætur hafi verið gerðar varðandi skráningu í breytingastjórnun UT kerfa.

Stjórnendur hafa brugðist við athugasemdum ytri endurskoðenda frá fyrra ári með góðum árangri þó áfram þurfi að vinna að skjölun, samþættingu við áhættumat og eftirlitsaðgerðir.

Megin niðurstaða endurskoðunarinnar er ábending um áframhaldandi vinnu við formfestu innra eftirlits, þar með talið áhættumat, skilgreiningu lykileftirlitsaðgerða og eftirlit með framkvæmd.

Óleiðréttir mismunir sem greindir voru á grundvelli endurskoðunarinnar voru undir mikilvægismörkum bæði hvað varðar reikningsskilin í heild og einstaka liði þeirra.

Breytingar á ársreikningalögum:

Alþingi samþykkti 2. júní 2016 lög um breytingar á lögum um ársreikninga sem takmarka heimildir hlutafélaga til greiðslu arðs. Samkvæmt nýju lögunum ber félögum sem nýta heimild til að tilgreina fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstrarreikning að færa óinnleystar gangvirðisbreytingar að frádregnum tekjuskatti eftir því sem við á, á bundinn gangvirðisreikning meðal eigin fjár.  

Jafnframt er ákvæði þess efnis að nemi hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga hærri fjárhæð en sem nemur mótteknum arði eða þeim arði sem ákveðið hefur verið að úthluta skuli mismunurinn færður á bundinn hlutdeildarreikning meðal eigin fjár.

Vegna óvissu í túlkun tiltekinna lagagreina gæti orðið breyting á eiginfjáryfirliti samstæðunnar, þegar leiðbeiningar hafa verið gefnar út um túlkun þeirra. Breytingin snýr að tilfærslum milli óráðstafaðs eigin fjár og bundinna eiginfjárreikninga.

Breytingar á endurskoðunar- og reikningsskilastöðlum:

Umræða var um reikningsskilastaðala sem hafa verið kynntir og félög sem setja fram reikningsskil í samræmi við þessa staðla eru hvött til að kynna sér þá ítarlega og fylgjast vel með undirbúningi innleiðingar þeirra. 

Nýr reikningsskilastaðall um leigusamninga – IFRS 16 tekur gildi 1. janúar 2019.

Nýr reikningsskilastaðall um vátryggingasamninga – IFRS 17 tekur gildi 1. janúar 2021 en gert er ráð fyrir að nýta heimild um frest á  innleiðingu IFRS 9 um fjármálagerninga til janúar 2021.

Ný persónuverndarlöggjöf 2018

Þann 27. apríl 2016 skrifuðu forsetar Evrópuþingsins og -ráðsins undir nýja evrópska persónuverndarlöggjöf en löggjöfin mun taka gildi þann 25. maí 2018 í Evrópu. Nýju lögin fela í sér auknar kröfur um innra eftirlit fyrirtækja og upplýsingaskyldu til einstaklinga og persónuyfirvalda.

Þessi löggjöf mun hafa mikil áhrif á meðferð og vörslu persónuupplýsinga og því mikilvægt að búa sig undir gildistöku þeirra.

Innri endurskoðun og áhættustýring:

Farið var ítarlega yfir verk- og tímaáætlun innri endurskoðenda ásamt þriggja ára áætlun með stjórnendum TM og innri endurskoðendum.  Lögð var áhersla á að skoða þá þætti sem mesta áhættu hafa á fjárhag félagsins. Jafnframt var farið ítarlega yfir niðurstöður innri endurskoðenda en þeir lögðu fram tvær áfangaskýrslur á tímabilinu:

 • Innri endurskoðun, ágúst 2017.
 • Innri endurskoðun, desember 2017.

Athugasemdir innri endurskoðenda eru flokkaðar í fjóra flokka eftir alvarleika þeirra:

Græn merking þýðir að skoðunarliður sé í lagi.

Gul merking þýðir að skoðunarliður sé í lagi en innri endurskoðandi kemur með ábendingu sem stjórnendum er í sjálfsvald sett hvort brugðist verði við.

Rauðgul merking þýðir nokkur veikleiki og óskað er eftir að stjórnendur bregðist við innan þriggja til sex mánaða.

Rauð merking þýðir mikill veikleiki og óskað er eftir að brugðist verði við innan þriggja mánaða.

Engar rauðmerktar athugasemdir voru gerðar í  skýrslunum.

Innri endurskoðun, ágúst 2017

Í fyrri skýrslunni er fjallað um endurtryggingar og innheimtu og lánaumsjón.

Í skýrslunni voru gerðar 18 kannanir þar af voru 14 án athugasemda og 4 fengu rauðgular merkingar. Jafnframt voru settar fram tvær gulmerktar ábendingar. 

Innri endurskoðun, desember 2017.

Í seinni skýrslunni er fjallað um fjárfestingar, áhættustýringu og eftirfylgni athugasemda/ábendinga frá árinu 2016.

Gerðar voru 33 kannanir og engar athugasemdir gerðar en settar fram 10 ábendingar.  

Eftirfylgni athugasemda/ábendinga frá árinu 2016.

Útbótum er lokið vegna þeirra atriða sem gerðar voru athugasemdir við.

Áhættustýring:

Farið var ítarlega yfir ORSA skýrslu félagsins 2016. Fram kom að nægilegt eigið fé er til að standa undir gjaldþolskröfum og þeim álagsprófunum sem gerðar voru í tengslum við skýrsluna.

Rætt var um þær sviðsmyndir sem stillt er upp í skýrslunni en áhugavert er að skoða áhrif samverkandi atburða á fjárhag TM.

Farið var ítarlega yfir ársfjórðungslegar áhættuskýrslur.

Sérstaklega var horft til stöðu áhættu einstakra þátta samanborið við áhættuvilja og gjaldþol í samanburði við gjaldþolskröfu.

Árangursmat endurskoðunarnefndar á störfum sínum:

Nefndin spurðist óformlega fyrir meðal þeirra aðila sem taka að sér innri- og ytri endurskoðun félaga og meðal annarra nefnda hvernig staðið væri að árangursmati endurskoðunarnefnda.  Niðurstaðan var sú að endurskoðunarnefndir eru í dag almennt ekki að kaupa þjónustu ytri aðila við gerð árangursmats.  Í ljósi þessa var ákvörðun tekin um að fá ekki utanaðkomandi aðila til að vinna árangursmat á störfum nefndarinnar að svo stöddu.  Mikilvægt er að fylgjast með hvernig verklag um árangursmat endurskoðunarnefnda kemur til með að þróast.

Nefndin er skipuð þremur einstaklingum sem allir hafa mikla reynslu í rekstri og fjármálum fyrirtækja.  Jafnframt er einn nefndarmaður endurskoðandi.  Nefndin hefur því á að skipa einstaklingum sem hafa bæði menntun og reynslu til að sinna þeim verkefnum sem lög og starfsreglur gera kröfu um.

Tveir nefndarmenn eru jafnframt stjórnarmenn sem tryggir að upplýsingar frá umræðum af nefndarfundum ná til stjórnar.  Jafnframt hafa stjórnarmenn aðgang að fundargerðum endurskoðunarnefndar.

Það eru mjög skýr ákvæði í lögum og starfsreglum um hlutverk nefndarinnar.  Þar eru talin upp þau verkefni sem nefndinni er ætlað að fjalla um.

Allir nefndarmenn mættu á alla fundi nefndarinnar og tóku allir virkan og málefnalegan þátt í umræðu um þau málefni sem á dagskrá nefndarinnar voru hverju sinni. 

Allir þeir þættir sem taldir eru upp í lögum og starfsreglum nefndarinnar voru teknir fyrir á nefndarfundum og fengu umfjöllun og afgreiðslu þar.

Með aðkomu endurskoðunarnefndar gefst meiri tími til að rýna þá þætti sem snúa að framsetningu fjárhagsupplýsinga, innra eftirliti og áhættustýringu. Það er mat nefndarmanna að vel hafi tekist til við að efla og styrkja innra eftirlit hjá félaginu og ljóst er að miklu skiptir að tími gefist til að fara vel yfir vinnu við gerð ársreikninga og árshlutareikninga ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á lögum og alþjóða reikningsskilastöðlum um framsetningu og greiningu fjárhagsupplýsinga.

Endurskoðunarnefnd er undirnefnd stjórnar og getur stjórn hvenær sem er óskað eftir frekari upplýsingum frá nefndinni um einstök verkefni eða falið henni ný verkefni.