Áhættustýring

Samhæfð áhættustýring félagsins starfar samkvæmt áhættustýringarstefnu og miðar að því að halda heildarsýn yfir alla áhættu félagsins og hvort hún sé í samræmi við áhættuvilja, fjárhagsstefnu og aðrar stefnur félagsins.

Samhæfð áhættustýring

Samhæfð áhættustýring TM starfar skv. áhættustýringarstefnu sem samþykkt er af stjórn og yfirfarin árlega. Samhæfð áhættustýring  miðar að því að halda heildarsýn yfir alla áhættu félagsins og hvort hún sé í samræmi við áhættuvilja, fjárhagsstefnu og aðrar stefnur félagsins. Í áhættustýringarstefnunni er áhættustýringarferli félagsins skilgreint en þar koma fram hlutverk og verkefni áhættustýringar. Stjórnendur stýra áhættu félagsins í samræmi við áhættuvilja TM sem stjórn setur og inniheldur áhættumörk sem félagið vill halda sig innan. Áhættustýring fylgist með og mælir áhættu og upplýsir stjórn félagsins í ársfjórðungslegum áhættuskýrslum um hvort áhættutaka og gjaldþol er innan áhættumarka stjórnar.

Við innleiðingu samhæfðrar áhættustýringar hefur meðal annars verið horft til ýmissa viðmiðunareglna EIOPA.

Uppbygging samhæfðrar áhættustýringar

Samhaefd-ahaettustyring

Áhættustýringarstefnan tekur meðal annars til aðferða við meðferð og mælingu einstakra áhættuþátta, útreikninga á gjaldþoli og gjaldþolskröfum, eigin áhættu- og gjaldþolsmats, þróunar líkana og skýrslugjafar um áhættu félagsins. Stefnan afmarkar einnig ábyrgð áhættustýringareiningar félagsins og aðkomu annarra sviða að áhættustýringu. Félagið hefur síðan sett eftirtaldar undirstefnur sem styðja við áhættustýringu félagsins:

 • Áhættuverðlagningar og vátryggingaskuldarstefna
 • Endurtryggingastefna
 • Fjárfestingastefna
 • Stefna um stýringu rekstraráhættu
 • Starfsmannastefna
 • Samskiptastefna
 • Upplýsingastefna
 • Upplýsingatæknistefna
 • Útvistunarstefna

Undirstefnurnar ramma inn svigrúm stjórnenda og starfsmanna til almennrar áhættutöku. Þannig er skýrt hvar ábyrgð stjórnenda og starfsmanna liggur hvað áhættutöku varðar og hvernig reka á daglega starfsemi með viðeigandi hætti.

Áhættustýringaraðferðir

Félagið reiðir sig að miklu leiti á staðlað líkan Solvency II fyrir tölulegt áhættumat í áhættuskýrslu til stjórnar. Mikið verk er að hanna sitt eigið líkan og notkun staðlaða líkansins hefur hjálpað til við að einfalda, fræða og upplýsa stjórn um áhættustöðu og þróun. Félagið notar einnig eigin aðferðir til að meta ýmsar helstu áhættur félagsins eins og vátryggingaáhættu, hamfaraáhættu, hlutabréfaáhættu, vaxtaáhættu og rekstraráhættu.

Félagið hefur skilgreint þær tegundir áhættna sem mynda í sameiningu áhættusnið (e. risk profile) félagsins. Þær flokkast í sex yfirflokka:

 • Vátryggingaráhætta
 • Markaðsáhætta
 • Kröfuáhætta
 • Lausafjáráhætta
 • Rekstraráhætta
 • Viðskiptaáhætta 

Áhættuvilji TM

Áhættuvilji félagsins lýsir vilja félagsins til áhættutöku og færir stjórnendum félagsins heimild til áhættutöku innan ákveðinna marka. Stjórn félagsins fær ársfjórðungslega skýrslu um hvort félagið sé innan áhættuvilja í einstökum áhættuþáttum og yfirlit yfir stöðu gjaldþols og fjárhagslegs styrks. 

Með áhættuvilja TM er sett fram skýr stefna félagsins um nauðsynlegt gjaldþol og áhættumörk sett fyrir þá áhættu sem félagið er tilbúið að bera fyrir eigin reikning. Þar eru ákvörðuð áhættumörk fyrir þrjá þessara áhættuflokka ásamt fleiri mælingum tengdri áhættu. Í ársfjórðungslegum áhættuskýrslum fylgist stjórn félagsins með áhættutöku þess og getur brugðist við ef áhætta er komin fram úr áhættuvilja stjórnar.

Fjárhagsstefna TM skilgreinir síðan nauðsynleg gæði og magn gjaldþolsliða og inniheldur arðgreiðslu- og endurkaupastefnu félagsins ásamt lausafjárstefnu. Gjaldþolsstýring, fjárhagslegur styrkur og traust eignasafn eru grunnforsendur þess að TM geti tekið við og borið áhættu viðskiptavina félagsins. Félagið vill halda nauðsynlegu eigin fé og gjaldþoli til að teljast traust og jafnframt skila eigendum sínum stöðugum og góðum arði til langs tíma. Félagið er með matseinkunnina B++ hjá A.M. Best.

Mikil framþróun hefur orðið í eiginfjár- og gjaldþolsstýringu með skilgreiningu áhættuvilja félagsins. Stýra þarf gjaldþoli félagsins í samræmi við þá áhættu sem rekstrinum og stefnu félagsins fylgir. Þar gegna lykilhlutverki kröfur nýrra laga um vátryggingastarfsemi og markmið félagsins um að halda matseinkunn í fjárfestingaflokki. Tekist hefur að ná góðum tökum á verkefninu og hefur félagið sett sér skýr markmið með vikmörkum um hve mikið gjaldþol félagið þarf. 

Félagið hefur sett sér markmið um gjaldþolshlutfall upp á 1,5 með vikmörk frá 1,4 til 1,7. Fari gjaldþolshlutfallið út fyrir mörkin kallar það á viðbrögð stjórnar og starfsmanna.

Eigið áhættu- og gjaldþolsmat

Félagið metur áhættur með reglulegum hætti og einu sinni á ári, hið minnsta, er staða matsins tekin saman í ársskýrslu sem kallast í daglegu tali ORSA skýrsla (e. Own Risk and Solvency Assessment) eða eigið áhættu og gjaldþolsmat. ORSA-matið er hliðstætt ICAAP-mati sem bankar fara í gegnum árlega og er skýrslan send til Fjármálaeftirlitsins.

Lagt er mat á alla áhættuþætti félagsins, líka þá sem ekki eru metnir í staðalreglu. Þá er félögum ætlað að nota sínar eigin aðferðir til að meta áhættur og þær niðurstöður bornar saman við niðurstöður staðalreglu. Staðalregla byggir á ákveðnum forsendum og því ber vátryggingafélögum einnig að leggja mat á hvort þær forsendur passi við raunáhættu og aðstæður þess. 

Ekki er nóg að sýna fram á góða gjaldþolsstöðu heldur á ORSA-matið líka að innihalda framtíðaráætlun til 3–5 ára. Við gerð áætlunarinnar er horft til gjaldþols og áhættusniðs félagsins og tekið tillit til áætlaðra arðgreiðslna. Niðurstöður ORSA eiga að tryggja að yfir áætlunartímabilið sé gott jafnvægi á milli stefnu félagsins í áhættutöku og því gjaldþoli sem nauðsynlegt er til að styðja stefnuna.

Fylgt er verklagi við gerð áhættumatsins samkvæmt ORSA stefnu félagsins.