Rekstrarniðurstöður 2017
Hagnaður eftir skatta nam 3,1 ma.kr. og var sérstaklega góð afkoma af fjárfestingastarfssemi félagsins. Arðsemi eigin fjár var 24,2% en markmið félagsins er að hún sé hærri en 15%. Tillaga stjórnar fyrir aðalfund er að greiddar verði 2,2 kr. í arð á hvern hlut, eða 1,5 ma.kr. Einnig verður lagt til að á árinu 2017 verði keypt eigin bréf fyrir allt að 1 ma.kr.
- Hagnaður ársins var 3.123 m.kr. og hagnaður á hlut var 4,61 kr. (2016: 2.597 m.kr. og 3,80 kr.)
- Hagnaður fyrir skatta var 3.207 m.kr. (2016: 2.953m.kr.)
- Framlegð af vátryggingastarfsemi var jákvæð um 97 m.kr. (2016: jákvæð um 420 m.kr.)
- Fjárfestingatekjur voru 3.750 m.kr. (2016: 3.178 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingaeigna var 14,9% (2016: 13,0%)
- Samsett hlutfall var 99,4% (2016: 97,0%)
- Bókfærð iðgjöld jukust um 7,8% á milli ára
- Eigin iðgjöld jukust um 6,6% á milli ára
- Eigin tjón hækkuðu um 10,8% á milli ára
- Rekstrarkostnaður hækkaði um 3,1% á milli ára
- Arðsemi eigin fjár var 24,2% (2016: 22,4%)
Rekstur
Á árinu 2017 var samsett hlutfall TM 99,4% og hækkaði milli ára, en samsett hlutfall ársins 2016 var 97,0%. Eigin iðgjöld jukust um 6,6% en ná ekki að halda í við hækkun tjónakostnaðar sem var 10,8% milli ára. Verri afkoma af vátryggingastarfsemi skýrist einkum af hærra tjónshlutfalli í eignatryggingum, skipatryggingum og ábyrgðartryggingum. Afkoma slysatrygginga batnar nokkuð milli ára en er ennþá óviðunandi. Afkoma ökutækjatrygginga var ágæt og svipuð því sem var á árinu 2016. Líftryggingar voru reknar með hagnaði líkt og á undanförnum árum en þær vega hins vegar ekki þungt í heildariðgjöldum. Hagnaður TM á árinu 2017 var 3.123 m.kr. eftir skatta og framlegð af vátryggingastafsemi 97 m.kr. Kostnaðarhlutfall félagsins á árinu var 20,1% en markmið TM er að ná kostnaðarhlutfalli undir 20% og gera spár ráð fyrir að það markmið náist á árinu 2018. Heildartekjur félagsins námu 18.771 m.kr. árið 2017 sem er 9% hækkun frá árinu 2016.
Kostnaður vegna endurtrygginga hefur farið stöðugt lækkandi á undanförnum árum og lækkar endurtryggingahlutfallið úr 5,1% af iðgjöldum í 4,0%.
Fjárfestingatekjur námu 3.750 m.kr. á árinu 2017. Það jafngildir 14,9% ávöxtun fjárfestinga en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 7,7% á árinu. Ávöxtun fjáreigna TM var því mjög góð á árinu 2017 og vel yfir meðalávöxtun síðastliðinna fimm ára sem er 12,7%. Góða ávöxtun á árinu 2017 má fyrst og fremst rekja til óskráðra hlutabréfa, skráðra hlutabréfa og sjóða og annarra verðbréfa sem skýra um 68% af fjárfestingatekjum ársins.
Vaxtagjöld lækka á milli ára aðallega vegna lægri vaxtagjalda íbúðalána en TM seldi nánast allar fjárfestingafasteignir sínar á árinu. Virðisrýrnun fjáreigna hækkar töluvert á árinu 2017, aðallega vegna greiðsluerfiðleika bílaleiga en félagið færði af þeim sökum varúðarniðurfærslu.
Heildargjöld félagsins námu 15.565 kr. árið 2017 sem er 8,6% hækkun frá árinu 2016. Tekjuskattur nam 84 m.kr. árið 2017 og er virkt skatthlutfall 2,6%. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 3.123 m.kr. sem er 20,2% hækkun frá fyrra ári.
Efnahagur
Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjár- og gjaldþolshlutfalli. Eiginfjárhlutfall var 40,7% í lok árs 2017 og gjaldþolshlutfallið 1,46 eftir að tekið hefur verið tillit til arðgreiðslu. Gjaldþolshlutfallið er í samræmi við áhættuvilja stjórnar félagsins.
Eignir
Í efnahagsreikningi TM er fjárfestingaeignum skipt í fjárfestingafasteignir, bundin innlán, útlán, verðbréf, og handbært fé. Í árslok 2017 nam fjárfestingasafn TM 28.775 m.kr. en það vegur um 83% af heildareignum félagsins sem námu 34.659 m.kr.
Eign TM í verðbréfum hækkaði hins vegar um 10% og nam 26.290 m.kr. í árslok 2017. Handbært fé og bundin innlán námu 1.130 m.kr. í árslok 2017 sem jafngildir um 4% af fjárfestingasafninu. Útlán félagsins lækkuðu á árinu en megnið af þeim eru bílalán til viðskiptavina.
Rekstrarfjármunir félagsins námu 343 m.kr. í árslok 2017. Húsnæðið sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24.
Óefnislegar eignir námu 313 m.kr. í árslok 2017 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í Líftryggingamiðstöðinni hf. og hins vegar eignfærður hugbúnaður. TM breytti afskriftareglum sínum á árinu og er nú eignfærður hugbúnaður afskrifaður á 10 árum.
Nýr liður í efnahagsreikningi er fjárfestingar með fjárfestingaáhættu líftryggingataka og felur hann í sér eignasafn vátryggjenda vegna söfnunarlíftrygginga. Þessi liður er einnig skuldamegin í efnahag.
Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 498 m.kr. í árslok 2017 og lækka töluvert á milli ára. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru hins vegar færðar með viðskiptakröfum. Viðskiptakröfur námu 4.612 m.kr. í árslok 2017 og hækka um 14% á milli ára. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 30% en var 27% árið á undan.
Eigið fé og skuldir
Eigið fé nam 14.102 m.kr. í árslok 2017 en bundinn eiginfjárliður nemur 4.460 m.kr Hann inniheldur m.a. óinnleystar gangvirðisbreytingar verðbréfa og hlutdeild í hagnaði dótturfélaga að frádregnum arðgreiðslum. Áhrif breytinga sem gerðar voru á ársreikningalögum eru enn óljósar varðandi ýmis túlkunaratriði en munu væntanlega skýrast þegar líður á árið. Mögulega geta orðið tilfærslur á milli liða í efnahagsreikningi af þessum sökum.
Í heild nam vátryggingaskuld TM 17.191 m.kr. í árslok 2017 og þar af var tjónaskuld 12.640 m.kr. eða 74%. Vaxtaberandi skuldir er víkjandi lán félagsins sem er rúmir 2 milljarðar kr.
Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir lækka á milli ára en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir, áfallin gjöld og ógreiddan tekjuskatt.