Ávarp stjórnarformanns
Að baki er gott ár í starfsemi TM. Ágætur hagnaður var af rekstrinum og þriðja árið í röð leggur stjórn til að félagið skili hluthöfum 1,5 milljarði króna í arð. Arðurinn nú er hlutfallslega lægri en síðustu tvö ár sem skýrist af hærri gjaldþolskröfu félagsins en hún helgast af auknu hlutfalli hlutabréfa af eignum og stærra safni óskráðra hlutabréfa. Gagnvart þeirri áhættu heldur félagið eftir stærri hluta af hagnaðinum.
Afkoma af tryggingastarfsemi var rétt rúmlega í járnum en ávöxtun fjárfestingaeigna var 14,9%. Meðaltalsávöxtun síðustu fimm ára er 12,7% sem er hærra en víðast gerist. Þessi góði árangur skýrist meðal annars af vel ígrunduðum fjárfestingum í óskráðum félögum en TM er fært um að fjárfesta til langs tíma, hvort heldur er í grónum atvinnugreinum eða nýsköpun. Horfur í efnahagslífinu gefa tilefni til að ætla að heldur kunni að draga úr ávöxtun hlutabréfa á komandi misserum en um leið standa vonir til að afkoma tryggingastarfseminnar batni. Eins og alltaf eru starfsmenn félagsins reiðubúnir að takast á við breyttar við aðstæður.
Fjárfestingastarfsemi TM er, eðli máls samkvæmt, afskaplega mikilvæg og náið er fylgst með tækifærum og nýjungum auk þess sem stöðugt er bætt í þekkingarbrunninn. Á haustdögum gerðist félagið stofnaðili að samtökunum IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum) sem ætlað er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Rímar sú hugmyndafræði vel við stefnu TM um samfélagslega ábyrgð og markmið um minnkun kolefnisfótspors. Þá er vert að geta þess að TM varð aðili að Jafnréttisvísi Capacent og skuldbindur sig til að vinna markvisst að verkefnum á sviði jafnréttismála næstu þrjú ár.
Þau tímamót urðu í sögu TM á árinu að erlendir fjárfestar keyptu hlutabréf í félaginu og áttu um áramót um 12% hlutafjár. Líklegt er að gott efnahagsástand og hagstætt hlutabréfaverð hafi dregið þá að landinu og forvitnilegt verður að sjá hvort þeir hugsi fjárfestinguna til langs tíma og hvort fleiri erlendir fjárfestar líti á íslensk hlutabréf sem álitlegan fjárfestingarkost.
Þessi fjárfesting erlendra aðila í íslenskum hlutabréfum leiðir hugann að samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Til tekjuöflunar í kjölfar efnahagshrunsins 2008 var lagður á tímabundinn 5,5% fjársýsluskattur á laun starfsmanna banka og tryggingafélaga og sérstakur 6% viðbótarskattur á hagnað sömu fyrirtækja umfram milljarð króna. Tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið hærri en nú og ástæðulaust að viðhalda þessum sérstöku sköttum sem leiða ekki til annars en minni samkeppnishæfni fyrirtækja í fjármálaþjónustu á alla vegu.
Það eru spennandi tímar framundan hjá TM. Félagið hefur sett sér að vera leiðandi í þeim umbreytingum sem ný tækni og ekki síður ný kynslóð viðskiptavina kalla eftir í tryggingaþjónustu. TM appið er fyrsta skrefið í þá átt. Um leið eru mörkin milli ólíkrar starfsemi hefðbundinna fjármálafyrirtækja smátt og smátt að breytast, og jafnvel eyðast. Í öllu falli er ljóst að margvísleg tækifæri felast í framtíðinni.
Örvar Kærnested