Ávarp forstjóra
Afkoma TM árið 2017 var mjög góð. Niðurstaðan er hagnaður upp á 3,1 milljarð króna sem er um það bil 300 milljónum króna meiri hagnaður en rekstrarspá ársins gerði ráð fyrir. Við erum stolt af þessari niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að á fyrri helmingi ársins voru óvenjuháar fjárhæðir gjaldfærðar vegna tjónamála frá fyrri árum. Afkoma tryggingarekstursins á síðari hluta ársins, einkum á síðasta ársfjórðungi, var jákvæð og gefur tilefni til bjartsýni fyrir komandi ár.
Fjárfestingastarfsemin gekk einstaklega vel og enn eitt árið skilum við góðri arðsemi eigin fjár. Hún nam 24,2%, sem jafnast á við það besta í rekstri félagsins síðustu ár. Ávöxtun fjárfestingaeigna var 14,9% sem teljast verður framúrskarandi en til samanburðar má nefna að markaðsvísitala Gamma hækkaði um 7,7% á árinu.
Þrátt fyrir talsverða hækkun kostnaðar á ýmsum sviðum, t.d. vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og hærri eftirlitsgjalda, hækkaði rekstrarkostnaður félagsins um aðeins 3% á árinu. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður án launa stóð í stað. Það er góð niðurstaða og til vitnis um aga í rekstrinum. Kostnaðarhlutfall var 20,1% en langtímamarkmið er að hlutfall kostnaðar sé undir 20%. Að því er stefnt á nýju rekstrarári. Samsett hlutfall (hlutfall tjóna- og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum) er mikilvæg kennitala í reikningum tryggingafélaga og nam það 99,4% á árinu. Það er hærra en væntingar stóðu til og heldur yfir meðaltali síðustu fimm ára en engu að síður viðunandi. Í rekstrarspá fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir að það verði 93%.
Mikil breyting hefur orðið á íslensku samfélagi á síðustu árum og þeirra gætir glögglega í starfsemi TM. Ferðaþjónusta hefur vaxið hratt og er fyrir allnokkru orðin mikilvæg stoð í þjóðarbúinu. TM hefur kappkostað að þjónusta þessa nýju umfangsmiklu atvinnugrein og meðal tíu stærstu viðskiptavina félagsins eru nú fimm fyrirtæki tengd ferðaþjónustu. Ekki er langt síðan að aðeins sjávarútvegsfyrirtæki skipuðu lista tíu stærstu viðskiptavina.
Eftir langt hagvaxtarskeið hefur heldur hægst um í hagkerfinu og vísbendingar eru uppi þess efnis að á næstu misserum muni gangurinn í efnahagslífinu vera nær því sem almennt þekkist í löndunum í kringum okkur. Hröðum vexti fylgja vaxtarverkir og tryggingafélög fara ekki varhluta af þeim. Tjónum fjölgar jafnan í efnahagslegri uppsveiflu og gangi endurskoðaðar hagvaxtarspár eftir má búast við að heldur dragi úr tjónaaukningu á næstunni.
Á árinu 2017 hélt þróun á verðlagningu og þjónustu TM áfram. Iðgjöld ákvarðast nú alfarið af reiknaðri áhættu og allir viðskiptavinir geta gengið að því vísu að greiða verð í samræmi við áhættu. Þessi nýja aðferðafræði byggir á tveimur af gildum félagsins, heiðarleika og sanngirni, og við endurnýjun ökutækjatrygginga nú í byrjun árs lækkuðu iðgjöld ríflega fjórðungs bifreiðatryggjenda að raunvirði.
Framtíðin er alltaf handan við hornið en misjafnt er hvað hún ber í skauti sér. Hugsum í framtíð er nýtt leiðarstef TM og með því er undirstrikuð sú ætlun félagsins að vera í forystu framfara á tryggingamarkaði. TM appinu hefur verið hleypt af stokkunum og þjónustuleiðum sem það býður upp á mun fjölga á árinu. Ýmislegt fleira er í farvatninu sem breyta mun samskiptum og sambandi TM og viðskiptavina. Í stuttu máli sagt er framtíðin spennandi og spá mín er sú að meiri breytingar verði í tryggingaþjónustu á næstu tíu árum en orðið hafa á þeim 61 árum sem félagið hefur starfað.
Sigurður Viðarsson